Færsluflokkur: Bloggar
20.2.2009 | 22:32
Álverið í Helguvík kemur!
Enn einu sinni stekkur leikarinn Dofri Hermannson inn á sviðið og reynir að slá álver í Helguvík út af borðinu. Við skulum vona að Dofri þurfi ekki að óttast að missa sitt starf á sínu stóra sviði, en hér á Suðurnesjum býr ósköp venjulegt fólk sem upplifir mikið óöryggi í kreppunni. Þetta fólk er kannski óspennandi í augum Dofra því það óttast yfirvofandi fjöldaatvinnuleysi meira en flest annað, enda er hér nú þegar mesta atvinnuleysi á landinu. Það getur vel verið að Dofri þurfi ekki að hafa áhyggjur af því hvernig hann ætlar að gefa börnunum sínum að borða eða mennta þau en hér býr fólk með svo takmarkað hugmyndaflug að það vill umfram allt trygg og vel launuð störf sem hverfa ekki í næstu efnahagslægð.
- Hann segir að álver séu að loka um allan heim vegna sölutregðu og verðs sem nær ekki framleiðslukostnaði. Jú, alveg rétt en það er svo að í kreppunni eru mörg fyrirtæki sem standa verst í hverri atvinnugrein að detta út. Þau betur reknu lifa. Eftir því sem ég best veit eru öll íslensku álverin vel rekin og ekki í hættu.
- Dofri talar um orkuskort. Ég veit ekki betur en að næg orka sé til fyrir Helguvík og líka alls konar aðra starfsemi, hvernig svo sem Dofri og hans vinir hafa það í sínu draumalandi.
- Hann talar um að við eigum að nota orkuna okkar til að skapa mörg störf og mikil verðmæti. Þar er ég honum sammála og bendi Dofra á alla þá verðmætasköpun sem verður til í sambandi við álver, t.d. í minni grein, vélsmíði, og t.d. í útflutningi á sérþekkingu verkfræðinga ofl. sem starfa fyrir áliðnaðinn.
- Hann heldur því fram að aðeins skapist 1 starf á hvert MW í áliðnaði en rúmlega 3 störf fyrir hvert starf í sólarkísilhreinsum. Í grein í Morgunblaðinu 11. febrúar eftir Ágúst Hafberg, færir Ágúst einföld rök fyrir því að afleidd störf vegna Norðuráls á Grundartanga séu a.m.k. 1.500 en starfsmenn eru rúmlega 500. Það eru því a.m.k. um 1.500 störf samtals. Ég man ekki betur en að Norðurál noti um 450 MW af raforku þannig að hjá Norðuráli séu um 3,3 störf á hvert MW.
- Dofri segir að ýmis önnur tilboð hafi borist orkufyrirtækjunum en þeim hafi verið sagt að fara aftast í röðina. Vilt þú segja mér, Dofri, hvaða fyrirtæki það eru nákvæmlega sem hafa raunverulegan áhuga og getu til að koma hér inn með atvinnuskapandi starfsemi en fá ekki orku? Ég man eftir mörgum fyrirtækjum sem töluðu um að koma með nýja starfsemi hér á Suðurnesjum. Frá árinu 2003 og til dagsins í dag hafa 25 - 30 erlendir fjárfestar komið hingað, skoðað aðstæður fyrir iðnað í Helguvík og kynnt sér orkuöflun. Þar má nefna mögulega stálröraverksmiðju, álþinnuverksmiðjur, efnaverksmiðjur, vatnsútflutning, frystigeymslur, manganverksmiðju, lýsisafurðir, kísilflöguverksmiðju ofl. Það hefur nákvæmlega ekkert komið út úr þessu ennþá. Þó að sumir aðrir sjái alls staðar bullandi tækifæri fyrir okkur er þetta staðreyndin. Þegar á reynir hafa menn hreinlega bara hætt við.
- Dofri. Ég veit að þú vilt þínu landi ábyggilega allt það besta en það hafa ekki allir sömu sýn á lífið og þú. Sumar þínar hugmyndir eru ágætis framtíðarmúsk sem vonandi rætist að einhverju leyti en leysa ekki risavaxinn vanda næstu ára. Þú talar um metnaðarfulla framtíðarsýn. Í mínum augum er það metnaðarfull framtíðarsýn að byggja hér álver sem skapar samtals um 3000 - 5000 störf á byggingartíma og 2000 framtíðarstörf og framleiðir ál á miklu umhverfisvænni hátt en flestöll önnur álver í heiminum.
Bloggar | Breytt 21.2.2009 kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Einar Bjarnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar